Háskólakona ársins er Anna Þorvaldsdóttir tónskáld

Félag háskólakvenna hefur valið Önnu Þorvaldsdóttur, tónskáld, sem Háskólakonu ársins 2018. Anna lauk BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego. Hún gegnir um þessar mundir stöðu staðartónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Anna er eitt virtasta tónskáld samtímans á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað. Verk hennar hafa hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun, þau eru flutt reglulega víðsvegar um heiminn og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum í Bandaríkjunum, í Evrópu og Asíu. Eftir Önnu liggja þrjár hljómplötur og er sú fjórða væntanleg í nóvember næstkomandi. Hljómplöturnar hafa hlotið góðar viðtökur og dóma.

Við valið er horft til þess til viðbótar við að viðurkenningarhafi hafi háskólagráðu að framlag Háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur. Það voru fjölmargar háskólakonur á forvalslista og var það samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Anna uppfylli vel öll þau skilyrði sem sett eru fyrir valinu og þykir hafa sýnt í verki hverju það getur skilað að hafa góða menntun í farteskinu samhliða því að leggja rækt við hæfileika sína. Tilgangur þess að velja Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill hampa framgangi þeirra, áræðni og sérstökum árangri.

Félag háskólakvenna var stofnað 1928 og fagnar því 90 ára afmæli á þessu ári. Í fyrra var í fyrsta skipti í sögu félagsins efnt  til vals á Háskólakonu ársins þegar dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, varð fyrir valinu en Unnur lauk BA gráðu í sálfræði við Háskóla Íslands og doktorsgráðu í klínískri faraldsfræði við Karolinska Institutet í Svíþjóð. Unnur Anna er meðal annars að vinna að einni stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla.

Mynd: Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, tók við viðurkenningu Félags háskólakvenna á Hótel Holti. Á myndinni er Anna ásamt stjórn Félags háskólakvenna, talið frá vinstri: Halldóra Traustadóttir, Helga Guðrún Johnson, Anna Þorvaldsdóttir, Elísabet Sveinsdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir, sem er formaður félagsins. Auk þess er Hanna Lára Helgadóttir í stjórn félagsins.

felag_haskolakvenna_verdlaun-17.jpg

Margrét Kristín Sigurðardóttir kjörin nýr formaður

Margrét Kristín Sigurðardóttir er nýr formaður Félags háskólakvenna, FHK. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu FHK. 

Félagið er hluti af alþjóðasamtökum háskólakvenna, GWI og fagnar það 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Meðal heiðursfélaga FHK eru Vigdís Finnbogadóttir og Geirlaug Þorvaldsdóttir. 

Með Margréti í stjórn FHK eru Elísabet Sveinsdóttir, Hanna Lára Helgadóttir, Helga Guðrún Johnson og Halldóra Traustadóttir.