Lög Félags háskólakvenna

 Heiti félags, heimili og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir Félag háskólakvenna. Félagið er aðili að Alþjóðasambandi háskólakvenna

(GWI Graduate women international) Bandalagi kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélagi

Íslands.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Tilgangur félagsins

2. gr.

Tilgangur félagsins er að:

1. Efla kynningu og samvinnu háskólakvenna á Íslandi og vinna að hagsmunamálum

þeirra sem og að efla alþjóðlegt samstarf.

2. Taka þátt í starfsemi Alþjóðasambands háskólakvenna og efla skilning og vináttu

háskólakvenna um allan heim.

3. Hvetja og styðja konur til aukinnar menntunar og vísindastarfa.

Félagsaðild

3. gr.

Í Félagi háskólakvenna geta verið:

1. Háskólamenntaðir einstaklingar sem útskrifast hafa úr íslenskum eða erlendum

háskólum sem hægt er að færa sönnur á með afriti af háskólaprófi.

2. Einstaklingar sem að loknu stúdentsprófi hafa tekið próf frá viðurkenndum sérskóla

sem telst jafngilt háskólaprófi.

4 gr.

Félagar fá full réttindi þegar þeir greiða félagsgjald.

5. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Árgjald félagsins er ákveðið á aðalfundi ár hvert.

Kostnaður við starfsemi félagsins skal greiddur með tekjum af árgjöldum og öðrum

framlögum sem félaginu berast til reksturs.

Aðalfundur

6. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í júnímánuði ár hvert. Til aðalfundar skal boða með auglýsingu í blöðum, með bréfi til félagsmanna eða á annan tryggilegan hátt, með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum.

7. gr.

Rétt til setu á aðalfundi eiga félagsmenn. Einungis skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

8. gr.

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

1. Kosning fundarstjóra og ritara.

2. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.

3. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

4. Kosning stjórnar.

5. Kosning skoðunarmanna reikninga.

6. Ákvörðun árgjalds.

7. Lagabreytingar, ef einhverjar eru.

8. Kosning í fastanefndir samkvæmt ákvörðun stjórnar.

9. Önnur mál.

9. gr.

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi þess. Lagabreytinga, ef einhverjar eru, skal getið í fundarboði aðalfundar. Lagabreytingatillögur skulu komnar til stjórnar fyrir 1. mars ár hvert. Nái tillaga til lagabreytinga samþykki 2/3 greiddra atkvæða telst hún samþykkt.

Stjórn félagsins

10. gr. Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum og tveimur kjörnum til vara. Formaður skal kjörinn sérstaklega sem og varaformaður. Stjórnin skipti með sér verkum.

11. gr.

Þrjár stjórnarkonur mynda sambandsstjórn og eru fulltrúar félagsins á alþjóðlegum fundum og þingum Alþjóðasambands háskólakvenna.

12. gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

13. gr.

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og að jafnaði með viku fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundi skal halda eins oft og formaður telur nauðsynlegt en þó eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Ennfremur skal halda stjórnarfund ef meirihluti stjórnar óskar þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns úrslitum). Formaður stjórnar fundum og varaformaður í forföllum hans. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

Félagsfundir

14. gr.

Almenna félagsfundi skal stjórn boða, þegar ástæða þykir til auk aðalfundar. Til félagsfundar skal boða með tryggilegum hættum með þriggja daga fyrirvara. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef fjórðungur félagsmanna óskar. Almennur félagsfundur er ályktunarfær um boðuð dagskráratriði, ef hann er löglega boðaður og þriðjungur félagsmanna er mættur á fundinn. Nú reynist fundur ekki ályktunarfær vegna fámennis og skal stjórn þá innan viku boða til nýs félagsfundar með tveggja vikna fyrirvara. Sá fundur er ályktunarfær án tillits til fjölda fundarmanna, enda hafi þess verið getið í fundarboði, að ályktað yrði um tiltekið dagskráratriði frá fyrra fundi.

Slit á félaginu

15. gr.

Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytingar, sbr. 9. gr.

Samþykkt á aðalfundi 2. júní 2020.