Háskólakona ársins 2023 - Dr. Kristín Jónsdóttir

Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2023.

Fyrir valinu varð Dr. Kristín Jónsdóttir eld­fjalla- og jarðskjálfta­fræðing­ur, sem hefur staðið í framlínunni vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga síðastliðin misseri.

Kristín er fædd árið 1973 og starfar sem hópstjóri í náttúruváreftirliti hjá Veðurstofu Íslands. Hún er í vísindaráði Almannavarna og hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands.

Kristín ólst upp í Breiðholti og foreldrar hennar eru Jón Kr. Hansen og Ingibjörg Júlíusdóttir sem bæði eru kennarar. Kristín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, námi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og er með doktorsgráðu í jarðskjálftafræði frá Uppsala-háskóla. Hún hefur rannsakað Bárðarbungu og aðrar megineldstöðvar á Íslandi og hefur starfað á Veðurstofu Íslands frá árinu 2013.

Í janúar árið 2021 hlaut Kristín 110 milljóna króna styrk frá Rannís til að leiða öndvegisverkefni sem mun standa yfir í þrjú ár og rannsaka jarðskjálftaóróa.

Með því að velja háskólakonu ársins líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna sem nú eru um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur.

Tilnefndar voru auk Kristínar; Anna Dóra Frostadóttir, Dr. Ásta Dís Óladóttir, Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, Dr. Díana Ósk Óskarsdóttir, Dr. Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir, Guðrún Karls Helgudóttir, Dr. Guðrún Kristjánsdóttir, Dr. Guðrún Nordal, Dr. Kristín Björnsdóttir, Dr. Lára Jóhannesdóttir, Dr. Sigurveig Huld Sigurðardóttir, Dr. Sóley S. Bender, Dr. Stefanía Þorgeirsdóttir, Dr. Sunna SímonardottirDr Unnur Anna Valdimarsdóttir, Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Við val á háskólakonu ársins var leitað m.a. til félagskvenna. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.

Magnavita kynning

Kæru félagskonur

Í kjölfar magnaðs baráttufundar við Arnarhól í dag þar sem stemmningin einkenndist af samstöðu, orku og gleði var haldið til fundar í HR þar sem Guðfinna S. Bjarnadóttir fv rektor HR tók á móti félagskonum og sagði hópnum frá Magnavitanáminu, tilurð þess og helstu markmiðum. Frábær fundur og frábær dagur í góðra kvenna.

Félag háskólakvenna veitir rannsóknarstyrki

Félag háskólakvenna veitti tvo rannsóknarstyrki að upphæð 500.000 kr hvor í kjölfar aðalfundar félagsins á Hótel Holti þann 23. maí sl.

Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi í félagsfræði við HÍ hlaut rannsóknarstyrk fyrir verkefnið Samfélags- og loftslagsvá? Rétt umskipti og aðgerðir í loftslagsmálum: Hvaða þættir tengjast stuðningi einstaklinga við aðgerðir í loftslagsmálum.

Í doktorsrannsókn Sóllilju er áhersla lögð á að skoða umhverfisfélagsfræði sem svið, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í þeim tilgangi hefur hefur Sóllilja dvalið bæði við Umea háskólann í Svíþjóð og við Harvard í Bandaríkjunum við rannsóknir í tengslum við doktorsverkefnið. Vísindalegt gildi rannsóknar Sóllilju hefur mikla þýðingu bæði hér á landi og erlendis. Doktorsverkefnið mun auka skilning á hvaða þættir ýta undir að almenningur sé tilbúinn til að styðja aðgerðir til að vernda umhverfið og hvaða samfélagslegu þættir hafa áhrif á almenningsviðhorfið til slíkra aðgerða.

Þá hlaut Berglind Lilja Guðlaugsdóttir doktorsnemi við Heilsueflingu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands rannsóknarstyrk fyrir verkefnið Bragðlaukaþjálfun: Litlu Laukar. Fæðumiðuð íhlutun í leikskóla með þátttöku leikskólastarfsfólks og foreldra. Börn hafa verið nefnd sem lykilmanneskjur til að móta sjálfbæra framtíð í gegnum mat og næringu, í samræmi við Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna þar sem ráðlagt er að fræða börn um heilsusamlegt mataræði fyrir heilbrigða plánetu.

Vísindalegt gildi rannsóknar Berglindar snertir einstaklinga, fjölskyldur, leikskóla, stofnanir og samfélög. Ef vel tekst til væri hægt að þróa nálgunina frekar og samþætta í námsskrá leikskóla sem tengist fæðutengdri þekkingu og viðhorfum barna og fjölskyldna þeirra.

Félagi háskólakvenna bárust 7 umsóknir um rannsóknarstyrk að þessu sinni og voru rannsóknirnar allar áhugaverðar og metnaðarfullar. Í dómnefnd sátu Áshildur Bragadóttir, Ruth Elfarsdóttir og Vilborg Einarsdóttir.

Stjórn FHK óskar Sóllilju og Berglindi Lilju innilega til hamingju með styrkina.

Aðalfundur Félags háskólakvenna 23. maí kl 17:00

Stjórn Félags háskólakvenna boðar til aðalfundar félagsins, þriðjudaginn 23. maí 2023 kl. 17.00 – 18.00. Fundurinn verður haldinn á Hótel Holti.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar og skulu þau berast eigi síðar en 12. maí á netfangið felaghaskolakvenna@gmail.com  þær sem bjóða sig fram til stjórnar skulu vera félagskonur, hafa greitt félagsgjöld og skulu láta ferilskrá fylgja með framboði.

 

Dagskrá

  1. Kosning fundastjóra og ritara

  2. Greint frá störfum félagsins á liðnu starfsári

  3. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins

  4. Kosning stjórnar

  5. Kosning skoðunarmanns reikninga

  6. Ákvörðun árgjalds

  7. Önnur mál

 

Að loknum aðalfundarstörfum verða veittir tveir rannsóknastyrkir til kvenna í framhaldsnámi.

 

 

Háskólakona ársins 2022

Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2022.

Fyrir valinu varð Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra veitti Unni viðurkenninguna í gær við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands

Með því að velja háskólakonu ársins líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna sem nú eru um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur.

Við val á háskólakonu ársins var leitað til fjölmargra aðila, m.a. rektora allra háskóla hérlendis

og þau beðin að tilnefna hvaða konur stæðu fremst að þeirra mati og ættu skilið tilnefninguna Háskólakona ársins. Þá var einnig leitað til félagskvenna. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.

Ásta Dís Óladóttir formaður félagsins sagði að ,,það hefði verið samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Unnur Þorsteinsdóttir sé háskólakona ársins 2022“.

Þetta er í sjötta sinn sem Félag háskólakvenna, stendur fyrir valinu.

Unnur er fædd árið 1958. Hún lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984, diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987 og doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá University of British Columbia árið 1997.

Á árunum 1997-2000 var hún nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000. Hún var verkefnastjóri í deild krabbameinsrannsókna 2000-2003 og forstöðumaður erfðarannsókna 2003-2010. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar frá 2010 og hefur m.a. leitt rannsóknir tengdum hjarta og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Hún tók við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 1. júlí 2022.

Samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Unnur gegnt stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum, þ. á m. fagráði Rannsóknarsjóðs í heilbrigðis- og lífvísindum, Vísinda- og tækniráði Íslands, setið í stjórn Rannsóknarsjóðs RANNÍS og var formaður stjórnar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Unnur hefur setið í doktorsnefndum, verið andmælandi við doktorsvarnir og leiðbeint doktorsnemum. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.

Árið 2022 var Unnur metin sem áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista sem vefurinn Research.com hefur tekið saman og byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna. Vefurinn birti þá í fyrsta sinn lista yfir fremstu vísindakonur heims en með því vilja forsvarsmenn vefsins draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa um langt skeið verið í miklum meirihluta. Markmiðið með listanum er einnig að hvetja vísindakonur áfram í störfum sínum, og ungar konur til þess að helga sig vísindum, en konur eru aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindum.

Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum. Það skilar henni, sem fyrr segir, í fimmta sæti á lista yfir fremstu vísindakonur heims og í fyrsta sæti meðal vísindakvenna í Evrópu. Unnur var jafnframt eina íslenska vísindakonan sem komst á listann að þessu sinni.

Tilnefndar voru auk Unnar

Arna Mathisen arkitekt sem útskrifaðist með meistaragráðu í arkitektúr frá Princeton háskóla og er annar stofnenda Apríl Arkitekta. Verk þeirra hafa hlotið margvíslegar viðurkenningar og eru þau notuð til fyrirmyndar í bæklingum hins opinbera í Noregi fyrir góðar og framsýnar lausnir. Arna er tilnefnd fyrir störf sín og fyrir að hafa sett mark sitt á borgarþróun, vistvæna og sjálfbæra hugsun.

Dr. Arney Einarsdóttir dósent við Háskólann á Bifröst er tilnefnd fyrir rannsóknir á sviði mannauðsmála en Arney hefur verið afkastamikil á því sviði. Hún er m.a. einn þátttakenda í Cranet rannsókninni.

Dr. Ásta Dís Óladóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands er tilnefnd fyrir rannsóknir á sviði jafnréttismála og jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa. Ásta Dís hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og stofnana. Hún hefur hlotið rannsóknastyrki og viðurkenningar fyrir störf sín og eftir hana hafa komið út bók og bókakarflar hjá virtum forlögum, og greinar hér á landi og erlendis.

Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst er tilnefnd fyrir uppbyggingu á nýrri námslínu um áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst.

Dr. Bryndís Snæbjörnsdóttir prófessor og fagstjóri meistaranáms í myndlist og sýningagerð við Listaháskóla Íslands. Hún er einnig gestaprófessor við Malmö Art Academy. Bryndís notar gjarnan samspil manna og dýra í verkefnum sínum til að skoða málefni er varða sögu, menningu og umhverfið.

Dr. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Brynhildur hefur bæði náð aðdáunarverðum árangri sem fræðikona á heimsmælikvarða og verið í forystu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún hefur m.a. beitt sér sérstaklega fyrir metnaðarfullu starfi fyrirtækisins að umhverfismálum.

Dr. Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix. Edda Sif hefur stýrt markvissri uppbyggingu Carbfix og fengið til liðs við sig einvala lið vísinda- og rekstrarfólks og náð fjölmörgum samningum um hagnýtingu, uppbyggingu og styrki.

Elín Jónsdóttir forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst fyrir eflingu og endurskipulagningu laganáms við Háskólann á Bifröst.

Fríða Björk Ingvarsdóttir fráfarandi rektor Listaháskóla Íslands. Fríða Björk hefur verið rektor skólans s.l. áratug. Fyrir þann tíma hafði hún getið sér gott orð sem bókmennta- og menningarrýnir, rithöfundur, blaðamaður og þýðandi. Fríða hefur verið stjórnarformaður Gljúfrasteins – húss skáldsins, setið í ráðgjafarnefnd um heiðurslaun Alþingis, í stjórn Kjarvalsstofu í París og var stjórnarformaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

Dr. Guðrún Nordal, prófessor og forstöðukona Árnastofnunnar. Guðrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir vísindasamfélagið, hér heima og erlendis. Þar má nefna í Vísinda- og tækniráð, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Guðrún hefur setið í stjórn og verið stjórnarformaður Nordforsk, norræna rannsóknarráðsins, og verið í stjórn European Science Foundation og í háskólaráði Fróðskaparsetursins í Færeyjum.

Dr. Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, kúrator og tónskáld. Halla Steinunn hefur skipað sér í fremstu röð innan snemm- og samtímatónlistar hérlendis. Hún hefur verið listrænn stjórnandi kammerhópsins Nordic Affect frá stofnun hans árið 2005. Nordic Affect hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Íris Baldursdóttir, rafmagns og tölvunarverkfræðingur, framkvæmdastjóri og meðstofnandi, Snerpu Power. Snerpa Power var stofnað í þeim tilgangi að virkja raforkunotendur á Íslandi til þátttöku á raforkumarkaði og bæta þannig auðlindanýtingu og skapa aukið svigrúm fyrir orkuskiptin. Íris hefur unnið hjá Landsneti í 15 ár, þar áður hjá alþjóðlegum rafbúnaðarframleiðanda, ABB, og nú starfar hún hjá Samtökum raforkuflutningsfyrirtækja Evrópu í Brussel.

Dr. Isabel C. Barrio prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún varði doktorsverkefni sitt í vistfræði árið 2010. Árið 2013 setti hún á fót alþjóðlega rannsóknatengslanetið Herbivory Network sem sameinar vísindamenn á Norðurslóðum. Tengslanetið hefur nú yfir 200 meðlimi frá meira en 20 löndum og er hýst hjá Landbúnaðarháskóla Íslands undir stjórn Isabel. Það var viðurkennt sem UArctic Thematic Network árið 2020.

Katrín María Káradóttir, dósent í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Katrín er frumkvöðull á sviði sjálfbærrar fatahönnunar og slow fashion. Hún hefur víðtæka reynslu á sviðum tilraunakenndrar sníðagerðar, hönnunar, listrænnar ráðgjafar og samstarfs, óhefðbundnum textíl og formum. Og lauk nýlega fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni um nýtingu fiskroðs í margvíslegar afurðir.

Dr. Oddný Mjöll Arnardóttir, rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við mannréttindi, bæði frá sjónarhorni stjórnskipunarréttar, þjóðaréttar og Evrópuréttar. Þá hafa viðfangsefni hennar öðrum þræði verið réttarheimspekileg auk þess sem hún hefur lagt áherslu á aðferðir dómstóla við að komast að niðurstöðum og samspil ólíkra réttarkerfa. Þing Evrópuráðsins kaus í janúar 2023 Oddnýju Mjöll dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Oddný Mjöll er fyrsta konan sem er skipuð dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af hálfu Íslands, en skipunartíminn er til níu ára.

Dr. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur komið afar víða við á sviði háskólanáms og rannsókna. Hún tók við sem rektor við LbhÍ árið 2019. Þar er hún í forsvari fyrir afar öflugan háskóla á sviði umhverfismála og landnýtingar. Á fyrstu tveimur árum hennar sem rektor tvöfaldaðist nemendafjöldi við skólann og hafa aldrei fleiri nemendur verið við doktorsnám við skólann.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. Hún hefur um árabil verið einn fremsti vísindamaður Háskólans í Reykjavík, verið formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur dæmt mál í Hæstarétti, héraðsdómi og í Mannréttindadómstóli Evrópu. Þá er Ragnhildur heiðursdoktor frá Háskólanum í Bergen.

Dr. Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Sif hefur verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi, hefur hlotið fjölda rannsóknarstyrkja og viðurkenninga og eftir hana hafa komið út bækur hjá virtustu bókaforlögum heims á sviði miðaldabókmennta, auk fjölda tímaritsgreina á alþjóðlegum og innlendum vettvangi.

Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, tilnefnd fyrir frumkvöðlastarf í þágu aldraðra. Sigurveig kom meðal annars á fót Múlabæ fyrstu dagþjálfun fyrir aldraða sem einmitt á 40 ára afmæli á þessu ári. Hún hefur einnig verið framkvæmdastjóri Rauða krossins, starfað sem félagsráðgjafi á LSH og er frumkvöðull ásamt öðrum að stofnun á námi fyrir félagsráðgjafa í HÍ.

Háskólakona ársins 2022

Þann 20. febrúar nk kl: 16 mun Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tilkynna hver hefur verið valin háskólakona ársins 2022

 

Athöfnin fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands í aðalbyggingu skólans.

 

Við hvetjum félagskonur til þess að mæta og endilega bjóðið með ykkur vinkonu(m). Í boði verða léttar veitingar.

 

Vinsamlegast skráið þátttöku til felaghaskolakvenna@gmail.com

Vel tekið á móti félagskonum FHK í Ráðhúsi Reykjavíkur

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar tók vel á móti félagskonum í Félagi háskólakvenna í móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðinn miðvikudag. Glatt var á hjalla og Þórdís Lóa kynnti fyrir okkur hvernig störf borgarfulltrúa ganga fyrir sig og í hverju felst að vera forseti borgarstjórnar.

Félagskonur fengu einnig að skoða sig um í Ráðhúsinu og var farið í borgarstjórnarsal ráðhússins þar sem Þórdís Lóa sagði okkur frá því hvernig borgarstjórnarfundir ganga fyrir sig.

Magnea Gná Jóhannsdóttir fyrsti varaforseti borgarstjórnar kíkti á okkur þegar líða tók á móttökuna og fengu Þórdís Lóa og Magnea margar spurningar frá félagskonum sem var svarað af einlægni.

Eins og myndirnar sýna var móttakan hin skemmtilegasta og mikið hlegið.

NÝKJÖRIN STJÓRN FÉLAGS HÁSKÓLAKVENNA

Á aðalfundi Félags háskólakvenna sem haldinn var föstudaginn 13. maí kl. 16.30 á Hótel Holti var kjörin ný stjórn félagsins fyrir árið 2022-2023.

Í stjórn voru kjörnar Dr. Ásta Dís Óladóttir formaður, Áshildur Bragadóttir varaformaður, Vilborg Einarsdóttir gjaldkeri, Guðmunda Smáradóttir ritari og Ruth Einarsdóttir. Í varastjórn eru Ágústa Valgeirsdóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.

Margrét Sigurðardóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og vill stjórn Félags háskólakvenna þakka henni kærlega fyrir hennar óeigingjarna framlag í þágu félagsins.

Skýrsla stjórnar Félags háskólakvenna 2021 - 2022

Á aðalfundi Félags háskólakvenna kynnti formaður félagsins Dr. Ásta Dís Óladóttir skýrslu stjórnar vegna starfsársins 2021 - 2022. Fjölmargir viðburðir voru haldnir á starfsárinu en um leið setti Covid mark sitt á starfsemina.

Til stóð að heimsækja Alþingi í september 2021 þar sem Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri ætlaði að taka á móti félagskonum en hætta þurfti við viðburðinn á síðustu stundu vegna heimsfaraldursins.

Um miðjan október var Borgarleikhúsið heimsótt og fjölmenntu félagskonur á viðburðinn enda ekki á hverjum degi sem konur geta kynnt sér króka og kima sem leynast baksviðs í leikhúsum.

Þann 21. október efndi FHK til málþings um stöðu drengja í menntakerfinu, óháð skólastigum sem vakti mikla athygli innan háskólasamfélagsins og meðal fjölmiðla.

Tilkynnt var um val á Háskólakonu ársins 2021 á Hótel Holti þann16. desember og var það Dr. Erna Sif Arnardóttir sem hlaut viðurkenninguna fyrir rannsóknir sínar á svefni og svefnvandamálum.

Í febrúar var Erna Sif síðan með áhugavert erindi um svefn og svefnvandamál kvenna í Háskólanum í Reykjavík og var viðburðurinn einnig í streymi. Um 20 konur mættu á viðburðinn og nokkrar fylgdust með í gegnum netið.

Þann 23. mars var vel sóttur viðburður hjá FHA þar sem frú Eliza Reid bókahöfundur og forsetafrú ræddi um fjölbreytileika og jafnrétti í samfélaginu, sagði frá bók sinni Sprakkar og las úr henni, viðstöddum til mikillar ánægju.

Á aðalfundi FHK var síðan veittur rannsóknarstyrkur að fjárhæð 500.000 kr. og var það doktorsnemiinn Cynthia Trililani á menntavísindasviði Háskóla Íslands sem hlaut styrkinn.

Á aðalfundi var einnig kjörin stjórn FHK 2022-2023. Margrét Sigurðardóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru henni færðar sérstakar þakkir fyrir sitt framlag í þágu félagsins.

Ásta Dís Óladóttir, Áshildur Bragadóttir, Guðmunda Smáradóttir og Vilborg Einarsdóttir gáfu áfram kost á sér til stjórnarsetu og þá bauð Ruth Elvarsdóttir sig einnig fram til stjórnar en hún var varamaður 2021-2022. Stjórn var sjálfkjörin og í varastjórn voru kjörnar Ágústa Valgeirsdóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.

Cynthia Trililani hlýtur rannsóknastyrk FHK 2022

Á aðalfundi Félags háskólakvenna (FHK) sem haldinn var föstudaginn 13. maí kl. 16.30 á Hótel Holti hlaut Cynthia Trililani, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 500.000 kr. rannsóknastyrk FHK 2022.

Í doktorsrannsókninni skoðar Cynthia mæður innflytjenda og reynslu þeirra af því að sækja sér æðri menntun í íslenskum háskólum ásamt því að sinna margþættri ábyrgð. Jafnframt er í rannsókninni skoðað hvernig mæðurnar skynja hlutverk menntunar í lífi sínu og hverju þær vonast til að ná fram með menntun sinni.

Aðspurð segir Cynthia: “Áhugi minn á að framkvæma þessa rannsókn er undir áhrifum af reynslu minni sem innflytjendamóðir . Ég tel að menntun sé öflugt tæki til að umbreyta lífi kvenna og styrkja konur til að skapa sér það líf sem þær vilja. Menntun mun hjálpa konum að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði og auka persónulegan þroska sinn.”

Alls bárust 25 umsóknir um rannsóknarstyrkinn og voru rannsóknirnar allar mjög áhugaverðar og metnaðarfullar.

Stjórn FHK óskar Cynthiu innilega til hamingju með styrkinn og velfarnaðar í námi og starfi.

Cynthia Trililani tekur á móti rannsóknarstyrknum af hendi Dr. Ástu Dís Óladóttur formanni FHK

Stjórn FHK ásamt styrkhafa (frá vinstri): Vilborg Einarsdóttir, Cynthia Trililani, Ásta Dís Óladóttir, Áshildur Bragadóttir og Guðmunda Smáradóttir. Á myndina vantar Ruth Einarsdóttur stjórnarkonu.

Cynthia Trililani styrkhafi.

Rannsóknarstyrkur FHK - opið fyrir umsóknir til 1. maí

Félag háskólakvenna (FHK) auglýsir eftir styrkumsóknum. Um er að ræða 500 þúsund króna rannsóknarstyrk til háskólakonu í framhaldsnámi. Umsókninni þurfa að fylgja grunnupplýsingar um styrkþega, stutt lýsing á rannsókninni, tímasetning rannsóknar og hvert framlag rannsóknarinnar er á því fræðasviði sem rannsóknin nær til.

Hægt er að senda inn umsóknir á netfangið felaghaskolakvenna@gmail.com. Umsóknarfrestur er til 1. maí nk.

Rannsóknarstyrkur verður veittur á aðalfundir félagsins þann 13. maí nk

Sprakkar á Hótel Holti

Það var notaleg stemming á Hótel Holti í gær er félagskonur fjölmenntu til að hlýða á Elizu Reid bókahöfund og forsetafrú ræða um fjölbreytileika og jafnrétti í samfélaginu. Í upphafi fundar rifjaði Ásta Dís Óladóttir formaður félagsins upp málþing sem hún ásamt samstarfsfólki sínu hélt í Háskóla Íslands, um jöfn tækifæri kynjanna árið 2020. Eliza var meðal gesta á málþinginu og er þess getið í bók hennar, Sprakkar. Ásta Dís las í kjölfarið upp brot af frásögn Elizu af málþinginu, sem vakti mikla kátínu meðal viðstaddra. Eliza þakkaði kærlega fyrir og sagði þetta í fyrsta sinn sem einhver hefði lesið fyrir hana úr bók sinni.

Eliza Reid sagði á sinn skemmtilega hátt frá bókinni og tilurð hennar og greip niður í nokkra kafla, viðstöddum til mikillar ánægju. Að lestri loknum spruttu miklar umræður og spurningar og m.a. sú hvaðan nafnið Sprakkar kemur. Eliza fór yfir það og sagði það fleirtölu af gömlu íslensku orði, sprakki, sem merki ,,röskleikakona, kvenskörungur“. En að það hafi lítið verið notað s.l. 100 ár. Við þökkum Elizu Reid kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að vera með okkur.

Vel heppnaður viðburður um svefn og svefnvandamál kvenna

Í gær var Erna Sif Arnardóttir Háskólakona ársins 2021 með mjög áhugavert erindi um svefn og svefnvandamál kvenna á vegum Félags háskólakvenna. Tuttugu konur voru á viðburðinum og fleiri fylgdust með í streymi. Við þökkum öllum sem tóku þátt og vonumst til að sjá sem flestar á næsta viðburð þann 23. mars en þá mun Eliza Reid forsetafrú kynna bók sína “Leyndarmál Sprakkana” sem segir frá því hvernig íslenskar konur eru við það að ná kynjajafnrétti. Nánari upplýsingar verða kynntar hér og á facebook síðu félagsins þegar nær dregur.

Dr. Erna Sif Arnardóttir valin Háskólakona ársins 2021

Stjórn Félags háskólakvenna heiðrar árlega eina háskólakonu fyrir framlag sitt til samfélagsins. Að þessu sinni var leitað til rektora allra háskóla á Íslandi og þeir beðnir um að tilnefna hvaða konur stæðu fremst að þeirra mati og ættu skilið tilnefninguna Háskólakona ársins. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.

Fyrir valinu í ár varð Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræðideild og forstöðumaður Svefnseturs við Háskólann í Reykjavík.

Dr. Erna Sif Arnardóttir er fædd árið 1981. Hún útskrifaðist með B.S. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2005, meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2007 og varði doktorsverkefni sitt í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2013 í samstarfi við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum.

Erna Sif hefur verið leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, m.a. sem nýdoktor og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands, sem forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild við Landspítala, sem klínískur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Nox Medical og sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Árið 2020 setti hún á fót þverfaglegt Svefnrannsóknasetur við Háskólann í Reykjavík sem hún veitir forstöðu. Erna Sif leiðir jafnframt rannsókna- og þróunarverkefnið Svefnbyltingin en verkefnið hlaut tveggja og hálfs milljarða króna styrk frá rammaáætlun Evrópusambandsins á árinu 2020, en það er einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna hérlendis.

Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Erna Sif veitir viðtöku, hún hefur áður hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði svefnrannsókna. Hún var valin ungur vísindamaður Landspítala árið 2009, hlaut hvatningarstyrk úr Vísindasjóði Landspítala árið 2011 og fékk Hvatningarverðlaun Rannís árið 2021. Auk þess hefur hún fengið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vettvangi þar sem hún m.a. hefur ítrekað haldið boðsfyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum.

Framlag Ernu Sifjar til vísindanna er óumdeilt en niðurstöður rannsókna hennar hafa birst í ýms­um virt­ustu tíma­rit­um heims á viðkom­andi fræðasviðum og þúsundir fræðimanna hafa vitnað í greinar hennar og rannsóknir.

Stjórn Félags háskólakvenna óskar Ernu Sif innilega til hamingju og þakkar öllum þeim sem komu að því að gera þennan dag ánægjulegan og eftirminnilegan.

Háskólakona ársins 2021 Dr. Erna Sif Arnardóttir lektor við verkfræðideild og forstöðumaður Svefnseturs við HR

Ásta Dís Óladóttir formaður Félags háskólakvenna veitir Ernu Sif viðurkenninguna Háskólakona ársins 2021

Umfjöllun á Stöð 2 og Vísi um málþing FHK

Á Stöð 2 og Vísi er rætt við Guðrúnu Ingu Sívertsen, skólastjóra Verzlunarskóla Íslands, og Tryggva Hjaltason, formann Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmann greiningardeildar CCP, en þau héldu erindi á málþingi FHK um stöðu drengja í íslensku menntakerfi. Einnig er rætt við formann FHK, Ástu Dís Óladóttur.

Hér er hægt að nálgast umfjöllunina: https://www.visir.is/g/20212172527d/kynjakvoti-tekinn-upp-i-verslo

Ásta Dís Óladóttir, formaður FHK.

Góð umræða á málþingi FHK um stöðu drengja í menntakerfinu á Íslandi

Góð umræða var á málþingi FHK um stöðu drengja í menntakerfinu á Íslandi óháð skólastigi sem fram fór í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þátttakendur í dagskrá voru Ásta Dís Óladóttir formaður Félags háskólakvenna, Tryggvi Hjaltason formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP, Guðrún Inga Sívertsen skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Vilborg Einarsdóttir meðstofnandi Mentor og framkvæmdastjóri Bravo Earth, Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík.

Myndir/Kristinn Ingvarsson.

Á Facebook FHK er hægt að nálgast fleiri myndir frá málþinginu: https://www.facebook.com/photo/?fbid=284823590312828&set=pcb.284824710312716

Guðmunda Smáradóttir, ritari FHK, stýrði pallborðsumræðum með rektorum Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands.

Fyrirlesarar ásamt formanni FHK, talið frá vinstri, Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Ásta Dís Óladóttir, formaður FHK, Tryggvi Hjaltason formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP, Guðrún Inga Sívertsen skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, og Vilborg Einarsdóttir meðstofnandi Mentor og framkvæmdastjóri Bravo Earth.

Vel heppnuð heimsókn FHK í Borgarleikhúsið

Félag háskólakvenna heimsótti Borgarleikhúsið þar sem Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri, og Alexía Björg Jóhannesdóttir, kynningarstjóri, tóku á móti félagskonum. Félagskonur FHK fengu að skoða öll svið leikhússins auk þess sem Brynhildur og Alexía Björg sögðu frá spennandi leikári sem er framundan. FHK þakkar þeim kærlega fyrir góðar móttökur. Á Facebook FHK er hægt að skoða fleiri myndir, https://www.facebook.com/felaghaskolakvenna.

Heimsókn FHK í Borgarleikhúsið

Félag háskólakvenna heimsækir Borgarleikhúsið fimmtudaginn 14. október kl. 17.00-19.00.
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri, og Alexía Björg Jóhannesdóttir, kynningarstjóri, taka á móti Félagi háskólakvenna.

Brynhildur og Alexía Björg ætla að fjalla um starf leikhússins og spennandi leikár sem framundan er.

Tekið verður á móti hópnum í forsal Borgarleikhússins.
Boðið verður upp á léttar veitingar.

Fjölmennum á fundinn og er velkomið að taka vinkonu með.

Hægt er að staðfesta mætingu með því að merkja við viðburðinn á facebook-síðu félagsins https://www.facebook.com/events/231289039023819 eða senda tölvupóst á felaghaskolakvenna@gmail.com.