Sprakkar á Hótel Holti

Það var notaleg stemming á Hótel Holti í gær er félagskonur fjölmenntu til að hlýða á Elizu Reid bókahöfund og forsetafrú ræða um fjölbreytileika og jafnrétti í samfélaginu. Í upphafi fundar rifjaði Ásta Dís Óladóttir formaður félagsins upp málþing sem hún ásamt samstarfsfólki sínu hélt í Háskóla Íslands, um jöfn tækifæri kynjanna árið 2020. Eliza var meðal gesta á málþinginu og er þess getið í bók hennar, Sprakkar. Ásta Dís las í kjölfarið upp brot af frásögn Elizu af málþinginu, sem vakti mikla kátínu meðal viðstaddra. Eliza þakkaði kærlega fyrir og sagði þetta í fyrsta sinn sem einhver hefði lesið fyrir hana úr bók sinni.

Eliza Reid sagði á sinn skemmtilega hátt frá bókinni og tilurð hennar og greip niður í nokkra kafla, viðstöddum til mikillar ánægju. Að lestri loknum spruttu miklar umræður og spurningar og m.a. sú hvaðan nafnið Sprakkar kemur. Eliza fór yfir það og sagði það fleirtölu af gömlu íslensku orði, sprakki, sem merki ,,röskleikakona, kvenskörungur“. En að það hafi lítið verið notað s.l. 100 ár. Við þökkum Elizu Reid kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að vera með okkur.