Félag háskólakvenna veitir rannsóknarstyrki

Félag háskólakvenna veitti tvo rannsóknarstyrki að upphæð 500.000 kr hvor í kjölfar aðalfundar félagsins á Hótel Holti þann 23. maí sl.

Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi í félagsfræði við HÍ hlaut rannsóknarstyrk fyrir verkefnið Samfélags- og loftslagsvá? Rétt umskipti og aðgerðir í loftslagsmálum: Hvaða þættir tengjast stuðningi einstaklinga við aðgerðir í loftslagsmálum.

Í doktorsrannsókn Sóllilju er áhersla lögð á að skoða umhverfisfélagsfræði sem svið, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í þeim tilgangi hefur hefur Sóllilja dvalið bæði við Umea háskólann í Svíþjóð og við Harvard í Bandaríkjunum við rannsóknir í tengslum við doktorsverkefnið. Vísindalegt gildi rannsóknar Sóllilju hefur mikla þýðingu bæði hér á landi og erlendis. Doktorsverkefnið mun auka skilning á hvaða þættir ýta undir að almenningur sé tilbúinn til að styðja aðgerðir til að vernda umhverfið og hvaða samfélagslegu þættir hafa áhrif á almenningsviðhorfið til slíkra aðgerða.

Þá hlaut Berglind Lilja Guðlaugsdóttir doktorsnemi við Heilsueflingu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands rannsóknarstyrk fyrir verkefnið Bragðlaukaþjálfun: Litlu Laukar. Fæðumiðuð íhlutun í leikskóla með þátttöku leikskólastarfsfólks og foreldra. Börn hafa verið nefnd sem lykilmanneskjur til að móta sjálfbæra framtíð í gegnum mat og næringu, í samræmi við Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna þar sem ráðlagt er að fræða börn um heilsusamlegt mataræði fyrir heilbrigða plánetu.

Vísindalegt gildi rannsóknar Berglindar snertir einstaklinga, fjölskyldur, leikskóla, stofnanir og samfélög. Ef vel tekst til væri hægt að þróa nálgunina frekar og samþætta í námsskrá leikskóla sem tengist fæðutengdri þekkingu og viðhorfum barna og fjölskyldna þeirra.

Félagi háskólakvenna bárust 7 umsóknir um rannsóknarstyrk að þessu sinni og voru rannsóknirnar allar áhugaverðar og metnaðarfullar. Í dómnefnd sátu Áshildur Bragadóttir, Ruth Elfarsdóttir og Vilborg Einarsdóttir.

Stjórn FHK óskar Sóllilju og Berglindi Lilju innilega til hamingju með styrkina.