Háskólakona ársins 2023 - Dr. Kristín Jónsdóttir

Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2023.

Fyrir valinu varð Dr. Kristín Jónsdóttir eld­fjalla- og jarðskjálfta­fræðing­ur, sem hefur staðið í framlínunni vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga síðastliðin misseri.

Kristín er fædd árið 1973 og starfar sem hópstjóri í náttúruváreftirliti hjá Veðurstofu Íslands. Hún er í vísindaráði Almannavarna og hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands.

Kristín ólst upp í Breiðholti og foreldrar hennar eru Jón Kr. Hansen og Ingibjörg Júlíusdóttir sem bæði eru kennarar. Kristín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, námi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og er með doktorsgráðu í jarðskjálftafræði frá Uppsala-háskóla. Hún hefur rannsakað Bárðarbungu og aðrar megineldstöðvar á Íslandi og hefur starfað á Veðurstofu Íslands frá árinu 2013.

Í janúar árið 2021 hlaut Kristín 110 milljóna króna styrk frá Rannís til að leiða öndvegisverkefni sem mun standa yfir í þrjú ár og rannsaka jarðskjálftaóróa.

Með því að velja háskólakonu ársins líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna sem nú eru um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur.

Tilnefndar voru auk Kristínar; Anna Dóra Frostadóttir, Dr. Ásta Dís Óladóttir, Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, Dr. Díana Ósk Óskarsdóttir, Dr. Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir, Guðrún Karls Helgudóttir, Dr. Guðrún Kristjánsdóttir, Dr. Guðrún Nordal, Dr. Kristín Björnsdóttir, Dr. Lára Jóhannesdóttir, Dr. Sigurveig Huld Sigurðardóttir, Dr. Sóley S. Bender, Dr. Stefanía Þorgeirsdóttir, Dr. Sunna SímonardottirDr Unnur Anna Valdimarsdóttir, Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Við val á háskólakonu ársins var leitað m.a. til félagskvenna. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.