Skýrsla stjórnar Félags háskólakvenna 2021 - 2022

Á aðalfundi Félags háskólakvenna kynnti formaður félagsins Dr. Ásta Dís Óladóttir skýrslu stjórnar vegna starfsársins 2021 - 2022. Fjölmargir viðburðir voru haldnir á starfsárinu en um leið setti Covid mark sitt á starfsemina.

Til stóð að heimsækja Alþingi í september 2021 þar sem Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri ætlaði að taka á móti félagskonum en hætta þurfti við viðburðinn á síðustu stundu vegna heimsfaraldursins.

Um miðjan október var Borgarleikhúsið heimsótt og fjölmenntu félagskonur á viðburðinn enda ekki á hverjum degi sem konur geta kynnt sér króka og kima sem leynast baksviðs í leikhúsum.

Þann 21. október efndi FHK til málþings um stöðu drengja í menntakerfinu, óháð skólastigum sem vakti mikla athygli innan háskólasamfélagsins og meðal fjölmiðla.

Tilkynnt var um val á Háskólakonu ársins 2021 á Hótel Holti þann16. desember og var það Dr. Erna Sif Arnardóttir sem hlaut viðurkenninguna fyrir rannsóknir sínar á svefni og svefnvandamálum.

Í febrúar var Erna Sif síðan með áhugavert erindi um svefn og svefnvandamál kvenna í Háskólanum í Reykjavík og var viðburðurinn einnig í streymi. Um 20 konur mættu á viðburðinn og nokkrar fylgdust með í gegnum netið.

Þann 23. mars var vel sóttur viðburður hjá FHA þar sem frú Eliza Reid bókahöfundur og forsetafrú ræddi um fjölbreytileika og jafnrétti í samfélaginu, sagði frá bók sinni Sprakkar og las úr henni, viðstöddum til mikillar ánægju.

Á aðalfundi FHK var síðan veittur rannsóknarstyrkur að fjárhæð 500.000 kr. og var það doktorsnemiinn Cynthia Trililani á menntavísindasviði Háskóla Íslands sem hlaut styrkinn.

Á aðalfundi var einnig kjörin stjórn FHK 2022-2023. Margrét Sigurðardóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru henni færðar sérstakar þakkir fyrir sitt framlag í þágu félagsins.

Ásta Dís Óladóttir, Áshildur Bragadóttir, Guðmunda Smáradóttir og Vilborg Einarsdóttir gáfu áfram kost á sér til stjórnarsetu og þá bauð Ruth Elvarsdóttir sig einnig fram til stjórnar en hún var varamaður 2021-2022. Stjórn var sjálfkjörin og í varastjórn voru kjörnar Ágústa Valgeirsdóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.