Stjórn endurkjörin á aðalfundi

Stjórn Félags háskólakvenna var endurkjörin á aðalfundi félagsins sem fram fór þriðjudaginn 28. maí. Halldóra Traustadóttir, var kosin formaður félagsins, Helga Guðrún Johnson, varaformaður, Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri, Margrét Kristín Sigurðardóttir, ritari, og Elísabet Sveinsdóttir, meðstjórnandi.

Á aðalfundinum fór fráfarandi formaður, Margrét Kristín Sigurðardóttir, yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2018-2019. Í máli hennar kom fram að starfsárið hafi verið viðburðarríkt en á árinu fagnaði félagið 90 ára afmæli. Á árinu voru haldnir 8 stjórnarfundir. Í október var efnt til viðburðar á Hótel Holti þar sem Háskólakona ársins var kynnt sem að þessu sinni var valin dr. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld. Stjórn stóð fyrir veglegri afmælishátíð í hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember þar sem flutt voru ávörp og erindi, heimildarmynd um FHK var sýnd, þrjár háskólakonur heiðraðar og veittur rannsóknarstyrkur. Þá var tónlistaratriði í lok dagskrár og boðið upp á léttar veitingar. Fjölmennt var á hátíðinni. Félagið veitti í tilefni 90 ára afmælisins 500 þúsund króna rannsóknarstyrk sem auglýstur var. Um 20 umsóknir bárust og hlaut Ingunn Gunnarsdóttir, 28 ára doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands styrkinn. Á afmælishátíðinni voru þrjár félagskonur sem hlutu heiðursviðurkenningar félagsins; Guðrún Erlendsdóttir, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Á árinu stóð stjórn fyrir því að gera nýtt myndmerki fyrir félagið þar sem gamla myndmerkið var fært í nútímabúning. Þá var ný vefsíða félagsins opnuð í nóvember í tilefni 90 ára afmælisins. Það var Helga Guðrún Johnson sem sá um framkvæmd heimildarmyndarinnar sem sýnd var á afmælishátíðinni.

Stjórn sendi félagskonum hátíðarkveðju í desember.

Í janúar fengu félagskonur boð í Listaháskóla Íslands þar sem Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, tók á móti félagskonum. Góð mæting var í heimsóknina. Þá fóru fjölmargar félagskonur í heimsókn til umboðsmanns barna, Salvöru Nordal, í húsakynni embættisins í Kringlunni 1. Heimsóknin fór fram í mars.

Á árinu var nokkrum sinnum umfjöllun um Félag háskólakvenna í fjölmiðlum, meðal annars í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Viðskiptablaðinu, mbl.is, Vísir og RÚV.

Félag háskólakvenna á aðild að Mæðrastyrksnefnd og er Guðrún Gunnarsdóttir fulltrúi FHK í stjórn nefndarinnar. Auður Reynisdóttir og Edda Björt eru fulltrúar FHK með vinnuframlag.

Félag háskólakvenna er einnig aðildi að Bandalagi kvenna í Reykjavík og mættu Hanna Lára Helgadóttir og Helga Guðrún Johnson á ársfund bandalagsins.

Félag háskólakvenna á í erlendu samstarfi við Graduated Women International, GWI, sem fagnar 100 ára afmæli á þessu ári. Hanna Lára Helgadóttir, átti fund með ísraelskri konu sem er varaformaður systurfélags FHK í Ísrael en þær kynntust á ráðstefnunni sem GWI hélt í Graz í Austurríki.

Skýrsla stjórnar 2018-2019.

Á myndinni eru talið frá vinstri, Elísabet Sveinsdóttir, Helga Guðrún Johnson, Hanna Lára Helgadóttir, Halldóra Traustadóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Aðalfundur 28 05 2019 (1).jpg
Aðalfundur 28 05 2019 (3).JPG

Fróðleg heimsókn FHK til umboðsmanns barna

Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, tók á móti fjölmennum hópi félagskvenna FHK þriðjudaginn 26. mars í húsakynnum embættisins í Kringlunni 1. Salvör sagði frá starfsemi umboðsmanns barna á Íslandi en eins og nafnið gefur til kynna er hann verndari ungra Íslendinga, vinnur að bættum hag barna og ungmenna allt að 18 ára aldri og stendur vörð um hagsmuni, réttindi og þarfir þeirra bæði gagnvart opinberum aðilum og einkaaðilum á öllum sviðum samfélagsins. Í máli Salvarar kom fram að viðfangsefni umboðsmanns barna eru fjölmörg og sum hver viðkvæm en hjá embættinu starfa 4 starfsmenn. Á Facebook FHK er hægt að skoða fleiri myndir frá viðburðinum.

Halldóra Traustadóttir, Helga Guðrún Johnson, Salvör Nordal, Hanna Lára Helgadóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Halldóra Traustadóttir, Helga Guðrún Johnson, Salvör Nordal, Hanna Lára Helgadóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

55514035_416415575597477_7038633056550256640_n.jpg
Formaður FHK færði Salvöru blómvönd sem þakkir fyrir að taka á móti félagskonum.

Formaður FHK færði Salvöru blómvönd sem þakkir fyrir að taka á móti félagskonum.

Salvör 2.jpg

Heimsókn til umboðsmanns barna

Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, ætlar að taka á móti Félagi háskólakvenna þriðjudaginn 26. mars næstkomandi kl. 17.00. Heimsóknin fer fram í húsakynnum umboðsmanns barna í Kringlunni 1. Umboðsmaður barna á Íslandi er eins og nafnið gefur til kynna verndari ungra Íslendinga, vinnur að bættum hag barna og ungmenna allt að 18 ára aldri og stendur vörð um hagsmuni, réttindi og þarfir þeirra bæði gagnvart opinberum aðilum og einkaaðilum á öllum sviðum samfélagsins. Viðfangsefni umboðsmanns barna eru fjölmörg og ætlar Salvör að segja okkur frá starfi sínu og helstu málefnum sem hún er að fást við.

Skráning á netfangið felaghaskolakvenna@gmail.com.

Umboðsmaður barna.png

Boð í Listaháskóla Íslands

Félagi háskólakvenna var boðið í heimsókn í Listaháskóla Íslands miðvikudaginn 23. janúar. Félagskonur fjölmenntu en um 40 konur mættu þrátt fyrir mikinn snjóþunga og erfiða færð þennan dag. Það var rektor háskólans, Fríða Björk Ingvarsdóttir, sem tók á móti félagskonum ásamt tveimur samstarfskonum sínum. Boðið var upp á sýnisferð um skólann og endað í fyrirlestrarsal þar sem rektor sagði frá starfsemi skólans, meðal annars húsnæðismálum skólans en skólinn er með starfsemi víða um borgina. Að erindi rektors loknu var efnt til umræðna. Móttökurnar voru góðar og var félagskonum boðið upp á veitingar. Á myndinni eru talið frá vinstri, Hanna Lára Helgadóttir, Elísabet Sveinsdóttir, Fríða Björk Ingvarsdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir. Á Facebook FHK er hægt að skoða fleiri myndir.

FHK heimsókn í LHÍ 23 01 2019.png

Ingunn Gunnarsdóttir hlýtur rannsóknarstyrk FHK

Í tilefni 90 ára afmælisins ákvað stjórn félagsins að veita rannsóknarstyrk að upphæð 500 þúsund krónur. Um 20 umsóknir bárust félaginu á ólíkum fræðasviðum og er óhætt að segja að þær hafi allar verið mjög frambærilegar. Stjórninni var því vandi á höndum að velja aðeins eina umsókn. Fyrir valinu varð umsókn Ingunnar Gunnarsdóttur, 28 ára doktorsnema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með sérhæfingu í sjálfbærri orkuþróun og sjálfbærnivísum. Það var formaður FHK, Margrét Kristín Sigurðardóttir, sem afhenti Ingunni styrkinni á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember síðastliðinn.

Með rannsókn sinni vill Ingunn leggja sitt af mörkum til að takast á við umhverfisvandamál sem steðja að heiminum og ógna í raun tilvist okkar. Og líkt og hún hefur sagt ömmu sinni þá er hún með vinnu sinni að bjarga heiminum. Ingunn vill byggja brú frá vísindum til stefnumótunar og hún trúir því að aðgerðir í umhverfismálum verði að byggjast á vísindalegum grunni eigi árangur að nást. Hún ætlar sér að búa til viðmið sem verða sköpuð með vísindalegum aðferðum til þess að hægt verði að stika leiðina fram á við og meta árangur aðgerða.

Rannsóknin tekur allt að fjögur ár en vinnan hófst vorið 2017 þar sem meginmarkmiðið er að þróa sjálfbærnivísa fyrir orkukerfi. Það felur m.a. í sér þróun aðferðafræði við val á sjálfbærnivísum ásamt greiningu á ákvarðanatöku og stefnumótun tengd orkumálum á Íslandi. Hugtakið sjálfbær orkuþróun var fyrst sett fram um síðustu aldamót og vísindin eru því ung og enn í mótun. Ekki eru allir á einu máli um hvað sjálfbær orkuþróun eða sjálfbært orkukerfi felur í sér og er rannsókninni ætlað að meta hvað sjálfbær orkuþróun á Íslandi felur í sér. Núna er engin viðurkennd aðferðafræði til við þróun sjálfbærnivísa en tilgangur þeirra sem verða þróaðir í rannsókninni er að skapa viðmið sem nota má til þess að mæla árangur í átt að sjálfbærari orkuþróun alls orkukerfisins. Þá felur rannsóknin í sér að rýnt verður í hvað sjálfbær orkuframtíð felur í sér, þróun framtíðarsviðsmynda og hvernig hægt verði að ná þessari sjálfbæru orkuframtíð með stefnumótun.

Rannsóknin er unnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Utrecht, Columbia háskóla. MIT og VTT rannsóknarsetur. Framlag rannsóknarinnar á því fræðasviði sem hún nær til mun þoka þekkingu fram á við þar sem allar hliðar íslenska orkukerfisins verða rýndar ítarlega og skýr mynd af kerfinu verður til. Það verður án efa áhugavert að sjá til hvers rannsóknin mun leiða þegar fram í sækir.

fhk_14112018-7.jpg
fhk_14112018-9.jpg

Guðrún Erlendsdóttir er heiðursfélagi

Guðrún Erlendsdóttir var gerð að heiðursfélaga Félagi háskólakvenna á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember síðastliðinn. Guðrún er fædd í Reykjavík árið 1936. Hún var stúdent frá MR árið 1956 og lauk prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands fimm árum síðar. Guðrún hlaut héraðsdómsréttindi árið 1962 og rak um árabil málaflutningsskrifstofu í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum. Hún flutti fyrirlestra og hélt námskeið við lagadeildir ýmissa virtustu háskóla heims svo sem Yale, Harvard og Kaupmannahafnarháskóla.

Guðrún varð fyrst kvenna til að kenna við Lagadeild Háskóla Íslands. Hún var aðjúnkt 1970 og síðar lektor og dósent – og fyrr á þessu ári var hún sæmd heiðursdoktorsnafnbót við lagadeildina. Auk þess að stunda kennslu og málafærslustörf, sinna barnauppeldi og heimilisrekstri, sinnti Guðrún ýmsum öðrum störfum. Þannig var hún varaborgarfulltrúi í Reykjavík um tíma, sat í hreppsnefnd Garðahrepps, var framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, átti sæti í barnaverndanefnd og í stjórn Félags háskólakvenna svo dæmi séu tekin. Þá var hún var formaður Jafnréttisráðs 1976-1979.

Guðrún varð fyrst íslenskra kvenna til að gegna embætti hæstaréttardómara; var settur dómari við réttinn árið 1982-1983 og skipaður dómari frá 1986. Hún var varaforseti Hæstaréttar 1989-1990 og forseti hans 1991-1992. Guðrún lét af embætti árið 2006.

Með framgöngu sinni í starfi og þátttöku í samfélagsstörfum hefur Guðrún verið mörgum konum fyrirmynd og verið brautryðjandi á ýmsum sviðum. Guðrúnu voru þökkuð störf í þágu félagsins fyrr á tíð en ekki síður fyrir framlag hennar til baráttu kvenna og samfélagsins alls.  

Á myndinni eru Guðrún Erlendsdóttir, Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri FHK, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður FHK.

fhk_14112018-37.jpg
fhk_14112018-38.jpg

Margrét Kristín Sigurðardóttir er heiðursfélagi

Margrét Kristín Sigurðardóttir, félagskonu FHK til margra ára var gerð að heiðursfélaga Félags háskólakvenna á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands14. nóvember síðastliðinn. Margrét, sem fædd er 1931, hóf háskólanám á miðjum aldri – eða eftir að hún hafði komið upp fjórum börnum og sent þau af stað út í lífið. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1991. Hún var deildastjóri launadeildar Landspítalans til 1995 og eftir það deildarstjóri fjárreiðudeildar spítalans. Áður hafði hún um árabil unnið sem ritari á Landspítalanum og sem leiðsögumaður.

Margrét hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í félagsmálum síns samfélags.  Hún átti lengi sæti í stjórn sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar og gegndi þar formennsku um tíma, átt sæti í jafnréttismálanefnd Bandalags kvenna í Reykjavík, sat í stjórn Félags leiðsögumanna og einnig í stjórn Félags háskólakvenna um árabil. Hún var lengst af gjaldkeri félagsins og átti drjúgan þátt í því öfluga starfi sem félagið hélt úti á þeim tíma.

Þá var Margrét fulltrúi félagsins í Mæðrastyrksnefnd árum saman og fjármálastjóri nefndarinnar um skeið. Hún hefur alla tíð lagt hart að sér við að þjóna þeim málstað, stóð vaktina með miklum sóma við úthlutanir og aðra starfsemi Mæðrastyrksnefndar. Til dæmis útvegaði hún nefndinni stórt húsnæði sem skipti sköpum fyrir starfsemina sem óx mjög að umfangi þau ár sem Margrét léði henni krafta sína. Allt það starf fyrir Mæðrastyrksnefnd er unnið í sjálfboðavinnu.

Margréti var veitt heiðursfélaganafnbót fyrir hennar miklu og góðu störf í þágu Félags háskólakvenna um árabil.

Á myndinni eru Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri FHK, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður FHK.

fhk_14112018-35.jpg