Auður Eir Vilhjálmsdóttir er heiðursfélagi

Auður Eir Vilhjálmsdóttir var gerð að heiðursfélaga Félags háskólakvenna á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands14. nóvember síðastliðinn. Auður Eir er fædd 1937 og eftir stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands árið 1956, hóf hún nám í guðfræði við Háskóla Íslands. Hún var önnur konan til að ljúka guðfræðiprófi hér á landi og fyrst íslenskra kvenna til að taka prestvígslu árið 1974. Þar ruddi hún brautina fyrir konur í þessari rótgrónu karlastétt. Rétt innan við 20 árum eftir að séra Auður Eir tók vígslu, voru konur komnar í meirihluta í guðfræðideild Háskóla Íslands. Kvenprestum hefur einnig fjölgað mjög á liðnum áratugum og því spáð að konur verði jafnmargar körlum í stéttinni innan 10 ára.

Samhliða námi, barnauppeldi og heimilisrekstri, starfaði séra Auður Eir einnig sem lögreglukona um nokkurra ára skeið. Hún var sóknarprestur á landsbyggðinni fyrstu árin eftir prestvígslu en frá árinu 1999 gegndi hún embætti sérþjónustuprests í Reykjavík. Hún lagði snemma áherslu á kvennaguðfræði og stóð fyrir sérstökum kvennamessum í mörg ár. Árið 1993 fór hún fremst í flokki við stofnun séstakrar deildar innan Þjóðkirkjunnar, Kvennakirkjunnar, sem nú hefur starfað í aldarfjórðung.

Við afhendingu var henni þakkað fyrir vel unnin störf í þágu félagsins í gegnum árin en ekki síður fyrir frumkvæði hennar og þrautseigju og fyrir að ryðja brautina fyrir konur í prestastétt – og vera öllum konum fyrirmynd.

Á myndinni eru Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri FHK, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður FHK.

fhk_14112018-40.jpg