Guðrún Erlendsdóttir er heiðursfélagi

Guðrún Erlendsdóttir var gerð að heiðursfélaga Félagi háskólakvenna á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember síðastliðinn. Guðrún er fædd í Reykjavík árið 1936. Hún var stúdent frá MR árið 1956 og lauk prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands fimm árum síðar. Guðrún hlaut héraðsdómsréttindi árið 1962 og rak um árabil málaflutningsskrifstofu í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum. Hún flutti fyrirlestra og hélt námskeið við lagadeildir ýmissa virtustu háskóla heims svo sem Yale, Harvard og Kaupmannahafnarháskóla.

Guðrún varð fyrst kvenna til að kenna við Lagadeild Háskóla Íslands. Hún var aðjúnkt 1970 og síðar lektor og dósent – og fyrr á þessu ári var hún sæmd heiðursdoktorsnafnbót við lagadeildina. Auk þess að stunda kennslu og málafærslustörf, sinna barnauppeldi og heimilisrekstri, sinnti Guðrún ýmsum öðrum störfum. Þannig var hún varaborgarfulltrúi í Reykjavík um tíma, sat í hreppsnefnd Garðahrepps, var framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, átti sæti í barnaverndanefnd og í stjórn Félags háskólakvenna svo dæmi séu tekin. Þá var hún var formaður Jafnréttisráðs 1976-1979.

Guðrún varð fyrst íslenskra kvenna til að gegna embætti hæstaréttardómara; var settur dómari við réttinn árið 1982-1983 og skipaður dómari frá 1986. Hún var varaforseti Hæstaréttar 1989-1990 og forseti hans 1991-1992. Guðrún lét af embætti árið 2006.

Með framgöngu sinni í starfi og þátttöku í samfélagsstörfum hefur Guðrún verið mörgum konum fyrirmynd og verið brautryðjandi á ýmsum sviðum. Guðrúnu voru þökkuð störf í þágu félagsins fyrr á tíð en ekki síður fyrir framlag hennar til baráttu kvenna og samfélagsins alls.  

Á myndinni eru Guðrún Erlendsdóttir, Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri FHK, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður FHK.

fhk_14112018-37.jpg
fhk_14112018-38.jpg