Ingunn Gunnarsdóttir hlýtur rannsóknarstyrk FHK

Í tilefni 90 ára afmælisins ákvað stjórn félagsins að veita rannsóknarstyrk að upphæð 500 þúsund krónur. Um 20 umsóknir bárust félaginu á ólíkum fræðasviðum og er óhætt að segja að þær hafi allar verið mjög frambærilegar. Stjórninni var því vandi á höndum að velja aðeins eina umsókn. Fyrir valinu varð umsókn Ingunnar Gunnarsdóttur, 28 ára doktorsnema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með sérhæfingu í sjálfbærri orkuþróun og sjálfbærnivísum. Það var formaður FHK, Margrét Kristín Sigurðardóttir, sem afhenti Ingunni styrkinni á 90 ára afmælishátíð félagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember síðastliðinn.

Með rannsókn sinni vill Ingunn leggja sitt af mörkum til að takast á við umhverfisvandamál sem steðja að heiminum og ógna í raun tilvist okkar. Og líkt og hún hefur sagt ömmu sinni þá er hún með vinnu sinni að bjarga heiminum. Ingunn vill byggja brú frá vísindum til stefnumótunar og hún trúir því að aðgerðir í umhverfismálum verði að byggjast á vísindalegum grunni eigi árangur að nást. Hún ætlar sér að búa til viðmið sem verða sköpuð með vísindalegum aðferðum til þess að hægt verði að stika leiðina fram á við og meta árangur aðgerða.

Rannsóknin tekur allt að fjögur ár en vinnan hófst vorið 2017 þar sem meginmarkmiðið er að þróa sjálfbærnivísa fyrir orkukerfi. Það felur m.a. í sér þróun aðferðafræði við val á sjálfbærnivísum ásamt greiningu á ákvarðanatöku og stefnumótun tengd orkumálum á Íslandi. Hugtakið sjálfbær orkuþróun var fyrst sett fram um síðustu aldamót og vísindin eru því ung og enn í mótun. Ekki eru allir á einu máli um hvað sjálfbær orkuþróun eða sjálfbært orkukerfi felur í sér og er rannsókninni ætlað að meta hvað sjálfbær orkuþróun á Íslandi felur í sér. Núna er engin viðurkennd aðferðafræði til við þróun sjálfbærnivísa en tilgangur þeirra sem verða þróaðir í rannsókninni er að skapa viðmið sem nota má til þess að mæla árangur í átt að sjálfbærari orkuþróun alls orkukerfisins. Þá felur rannsóknin í sér að rýnt verður í hvað sjálfbær orkuframtíð felur í sér, þróun framtíðarsviðsmynda og hvernig hægt verði að ná þessari sjálfbæru orkuframtíð með stefnumótun.

Rannsóknin er unnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Utrecht, Columbia háskóla. MIT og VTT rannsóknarsetur. Framlag rannsóknarinnar á því fræðasviði sem hún nær til mun þoka þekkingu fram á við þar sem allar hliðar íslenska orkukerfisins verða rýndar ítarlega og skýr mynd af kerfinu verður til. Það verður án efa áhugavert að sjá til hvers rannsóknin mun leiða þegar fram í sækir.

fhk_14112018-7.jpg
fhk_14112018-9.jpg